Ísmar kaupir Fálkann

Gengið hefur verið frá kaupum sölu- og þjónustufyrirtækisins Ísmars á Fálkanum. Alls starfa 32 starfsmenn hjá félögunum en ekki er gert ráð fyrir að starfsfólki fækki í tengslum við kaupin.
Fram kemur í tilkynningu að Ísmar muni á næstu vikum flytja inn í starfsstöð Fálkans á Dalvegi 10-14 í Kópavogi þar sem félögin ætli að nýta sameiginlega aðstöðu fyrir verslun, vörugeymslu og skrifstofur.
Ísmar hefur á undanförnum árum lagt áherslu á sölu, ráðgjöf og þjónustu á tæknibúnaði, svo sem mælitækjum og vélstýringum sem nýta sér GPS tækni, lasertæki, búnað til sjómælinga, hitamyndavélar, fjarskiptabúnað, loftræstibúnað og hússtjórnarkerfi.
Áherslur Fálkans hafa verið á sölu og þjónustu á tæknivörum tengdum bíla- og vélahlutum, véltæknivörum og raftæknivörum. Jafnframt segir í tilkynningu að samrekstur félaganna skapi aukin tækifæri til bættrar þjónustu við viðskiptavini.
Bæði fyrirtækin hafa verið virk í sölu á loftræstivörum og loftræstikerfum.